Árið 1998 var ég að vinna í EJS ásamt fleira góðu fólki. Mér er minnisstætt að vera á heimleið einhvern tímann og rekast þá á Gunnar Inga Traustason sem ég kannaðist lauslega við. Þegar ég spurði hann hvað hann væri að gera sagði hann mér að hann væri í hugbúnaðarþróun hjá Tæknivali.
“Forritun”? spýtti ég út úr mér. “Er það ekki alveg ömurlegt”? Sitja allan daginn fyrir framan tölvuna og sjá aldrei neitt liggja eftir sig í lok dagsins?
Það var þá sem ég var leiddur í sannleikann um hvað hugbúnaðarþróun snérist raunverulega og að það væri hugsanlega mest gefandi starf í heimi (ásamt leikskólakennslu). Það var orðað öðruvísi þá – en inntakið var það að það besta við hugbúnaðarþróun væri að maður fengi stöðugt feedback á vinnuna sína. Þú skrifar örfáar línur af kóða og prófar þær svo. Ef það er villa í kóðanum verðurðu þess oftast var strax, en ef þú hefur lokið verkefninu rétt sérðu kóðann virka og snýrð þér að næsta kóðabút.
Sem sagt, þetta er eins og að leika sér með Legokubba. Þú tekur einn kubb festir hann við þann næsta og svo koll af kolli þangað til þú hefur byggt hús. Nú eða búið nothæft forrit/vef.
Leiðir okkar Gunnars skildu þarna á Grensásveginum og ég sá hann lítið næsta árið.
Ég átti seinna eftir að fara í skóla með Gunna og stofna ásamt honum og fleiri góðum hugsandi mönnum fyrsta fyrirtækið sem ég hafði raunverulega aðkomu að. Það var árið 1999 þegar allir höfðu metnað fyrir þvi að taka þátt í internetinu. Þetta fyrirtæki snérist auðvitað um hugbúnaðarþróun og ég hef síðan þá meira eða minna haft af því starfa og ánægju að vinna í upplýsinga- og fjarskiptafyrirtækjum.
Ég held að hluti af vandamálinu sé að börn og foreldrar sjái ekki hversu gefandi þetta starf getur verið, sjái ekki að þú vinnur allan daginn við að búa til eitthvað alveg nýtt og spennandi.
Ég veit það, að ef ég stæði frammi fyrir því að velja mér ævistarf núna myndi ég ekki hika við að læra hugbúnaðargerð. Ég veit ekki hversu oft ég hef hugsað með mér, “þetta er frábær hugmynd, ef ég kynni að forrita myndi ég framkvæma hana”.
Þess vegna held ég að vefir eins og Code.org séu svo sniðugir og fyrirtæki eins og ReKode/Skema séu frábær viðbót við menntakerfið. Krakkar fá tækifæri til að nota tölvuna til að fá útrás fyrir sköpunargáfuna. Ég hef varið smá tíma á Code.org ásamt 8 ára dóttur minni og séð hana komast á þann stað að vera fljótari en ég að átta sig á því hvernig best væri að leysa ákveðin verkefni. Ég lít á það sem fullnaðarsigur, af minni hálfu.
Með smá heppni, munum við útskrifa mun stærri hópa fólks með raungreinabakgrunn sem getur nýtt sér upplýsingatækni til að búa til verðmæti innan fárra ára. En til þess verðum við að passa að krakkarnir skilji að þau geta notað upplýsingatæknina til að ná markmiðum sínum. Best held ég að væri ef krakkarnir geti blandað saman kunnáttu í hugbúnaðargerð við einhverja allt aðra menntun/þekkingu. Þá fyrst myndi ég segja Íslandi borgið. Ef þau hafa þekkingu til að skrifa litlar lausnir til að stytta sér leið, flýta fyrir, skapa sér tíma í daglega lífinu erum við komin vel á veg. Raunveruleg verðmæti verða til þegar blandað er saman tvenns konar þekkingu.
E.s. veistu hvernig þú þekkir extrovert forritarann frá introvert forritara? ~Extrovertinn horfir á skóna hjá ÞÉR þegar hann talar við þig. (Stolið og stílfært)