Vel menntað og duglegt fólk flyst á brott frá Íslandi.
Í dag fékk ég símtal frá vini sem sagði mér frá því að eigendur fyrirtækja sem gengju ágætlega væru enn að reyna að kreista niður kostnaðinn með tilvísan í “kreppuna” – og í þessu tilfelli er það að lækka laun hjá einu af best reknu fyrirtækjunum í sínum geira. Það hefði leitt af sér að 3 lykilstarfsmenn af þeim 7 sem starfa þarna hefðu ákveðið að segja upp störfum.
Svona fyrir utan hversu kjánalegt það er að að lækka þar rekstrarkostnað um 1-2 milljónir á mánuði á hæpnum forsendum – en taka á í staðinn áhættu á 1700 milljón krónu ársveltu og góðum hagnaði þá langar mig að draga fram annað málefni sem ég hef orðið miklar áhyggjur af heima.
Í þessu tilfelli er það spekilekinn sem ég hef áhyggjur af. Þessi vinur minn sagði mér að hann hefði tekið ákvörðun um að flytja erlendis og með honum hverfur kona og 3 börn. Þarna fara 2 vel menntaðir einstaklingar, þar af annar með sérhæft framhaldsnám á bakinu og ákveða að beina starfskröftum sínum að uppbyggingu í öðrum löndum.
Mér er lífsins ómögulegt að skilja hvernig stjórnvöld á Íslandi sjá fyrir sér að efnahagur landsins batni með atgervisflótta. Í mínu nánasta umhverfi get ég talið amk 6 fjölskyldur sem hafa kosið að hætta þessu öllu saman og flytjast á braut. Svo eru auðvitað svona kálfar eins og ég sem hafa verið að vinna með annan fótinn í útlöndum og hinn heima. Flestir af þessum vinum mínum segjast vilja vera úti í 3-5 ár og koma þá aftur þegar efnahagurinn er farinn að rétta úr kútnum. En það gerist ekki sjálfkrafa. Það þurfa einhverjir að vera eftir til að bera byrðarnar.
Undanfarin tvö ár hafa stjórnmálaflokkar helst af öllu viljað að þeir sem eru á aldrinum 25-50, eiga fjölskyldu og einhverjar fasteignir beri hitann og þungann af öllu því sem hér hefur gengið á. En nú er sá hópur farinn að týnast á brott.
Hvernig geta stjórnmálamenn brugðist við þannig að þetta fólk kjósi að vera áfram heima?
Við síðustu spurningunni eiga núverandi stjórnvöld tæpast nema eitt svar: átthagafjötrar.
já – þau hafa vissulega verið að reyna þá aðferð með því að gera ekkert í málum illa staddra skuldara. Og með ágætisárangri hingað til.
En svo eru þeir sem láta bara skeika sköpuðu…